Nýsköpunarvikan haldin hátíðleg í grósku

október 29, 2020

Nýsköpunarvikan var haldin hátíðlega í fyrsta sinn dagana 30. september til 7. október 2020. Með hátíðinni gefst frumkvöðlum og fyrirtækjum tækifæri til að kynna skapandi starfsemi sína og vekja athygli á þeim framúrstefnulegu lausnum sem sprottið hafa upp úr íslensku hugviti. Setning Nýsköpunarvikunnar fór fram í Grósku, heimili nýsköpunar í Vatnsmýrinni, og var henni streymt á vísir.is. Á setningarathöfninni var fjallað um nýsköpun þvert á atvinnugreinar en meðal þeirra sem tóku þar til máls voru Guðni Th. Jóhannesson, Forseti Íslands og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. 
Markmið Nýsköpunarvikunnar er þríþætt. Í fyrsta lagi að vekja athygli á nýsköpun sem á sér stað innan stærri fyrirtækja hér á landi og draga fram sérstöðu þeirra. Þá er ætlunin að koma á samtali milli frumkvöðla, sprotafyrirtækja og almennings og veita innsýn í sköpunarferlið sem liggur að baki ólíkum fyrirtækjum. Loks er stefnt að því að Nýsköpunarvikan skapi sér sess til framtíðar sem vettvangur fyrir erlenda aðila sem vilja kynnast nýsköpun á Íslandi, tengjast sprotum, fjárfestum og frumkvöðlum og mynda ný viðskiptasambönd og tengsl. Þannig verði hátíðin sambærileg öðrum tækni- og sprotaráðstefnum á Norðurlöndum. 

Viðburðir vikunnar voru jafn fjölbreyttir og þeir voru margir, og má þar nefna heilsu- og fjártækni hakkaþon, fyrirlestra um tengsl sjálfbærni og ferðaþjónustu framtíðarinnar, stöðu vísifjárfestinga á Íslandi, stafrænan rekstur í deilihagkerfinu og hina ýmsu viðburði þar sem fjöldi nýsköpunarfyrirtækja, gamalgróinna jafnt sem nýsprottinna, kynntu starfsemi sína. 

Dagskráin á opnunarhófinu sem haldið var í Grósku 30. september:

  • Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson setur hátíðina
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir – Ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráðherra með opnunarerindi – „Ekki lúxus heldur nauðsyn“
  • Edda Konráðsdóttir – Ein stofnenda Nýsköpunarvikunnar “Afhverju Nýsköpunarvikan?”
  • Andri Heiðar Kristinsson – Stafrænn leiðtogi “Á hraðri leið inn í framtíðina”
  • Kristján Garðarsson – Arkitekt “Arkitektúr og Nýsköpun – Gróska verður til”
  • Hrefna Haraldsdóttir – Yfirmaður tækniseturs Marel á Íslandi – “Nýsköpun samhliða vexti”
Total: