Startup SuperNova í Grósku til framtíðar
Okkur er ánægja að skýra frá því að Startup SuperNova hefur fengið aðstöðu í Grósku til framtíðar en þessi nýi og spennandi hraðall er einmitt í anda þess sem Gróska stendur fyrir. Startup Supernova er samstarfsverkefni Icelandic Startups og Nova en um er að ræða upplagðan vettvang til að þróa nýsköpunarverkefni, efla tengslanetið og koma nýrri viðskiptahugmynd á framfæri.
„Reynslan sýnir að það skiptir máli fyrir frumkvöðla að vera í kringum annað fólk í sömu hugleiðingum og við teljum að húsið geti virkað eins og stökkpallur.“ segir Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar í Grósku.
Í Grósku fá þátttakendur í Startup SuperNova fullbúna vinnuaðstöðu auk þess sem húsið býður upp á allt sem þeir þurfa í sínu daglega lífi eins og mathöll, kaffihús, tónleikasal og líkamsræktarstöð. Þeir ættu því að geta sökkt sér verulega ofan í þá krefjandi vinnu sem hraðallinn er.
Árangur viðskiptahraðals Icelandic Startups hefur verið eftirtektaverður undanfarin ár en fjölmörg fyrirtæki sem tekið hafa þátt hafa í kjölfarið fengið fjármagn frá innlendum og erlendum sjóðum. Má þar nefna Authenteq, Kaptio, Activity Stream, Florealis, Jurt Hydroponics og Keynatura sem eru öll starfandi í dag. Eins ber að nefna að bæði Meniga og Controlant stigu sín fyrstu skref undir handleiðslu Icelandic Startups.
Opið er fyrir umsóknir til 10. júní 2020.
Frekari umfjöllun um samstarfið má finna á síðum Viðskiptablaðsins, Fréttablaðsins og northstack.is
